Árið 1982 fæddist hjónunum í
Sandvík í Bárðardal, þriðja stúlkubarnið. Hún fékk nafnið Halla í höfuðið á afa
sínum. Halla var mikið náttúrubarn og var alin upp við góð gildi, sem enn lifa
í stúlkunni. Höllu stóðu flestar dyr opnar við útskrift úr grunnskóla. Hún var
með góðar einkunnir á öllum sviðum. Stúlkan hafði á unglingsárum farið að vinna
í ferðaþjónustu í sveitinni. Á menntaskólaárum prófaði hún einnig að vinna í
matvöruverslun og eitt sumar í banka. Bankavinnan féll Höllu ekki í geð, enda
átti náttúrubarnið erfitt með að sitja í bás fyrir framan tölvu. Hún var líka
orðin þreytt á þessum þjónustustörfum, þó hún vissi að einhver þyrfti að vinna
þau. Eftir útskrift fékk Halla vinnu við að vera leiðbeinandi í leikskóla.
Henni hefði aldrei dottið í hug að sækja um starf þar, en systir hennar vann
þar og það vantaði starfsmann. Á fyrsta starfsmannafundinum sá hún að þetta
væri gott starf fyrir hana. Hún hafði alltaf einungis tekið við fyrirmælum og aldrei
haft mikið um störfin að segja. Þarna var hún spurð hvort það væri eitthvað sem
hún vildi tala um og hvað henni þætti um hin og þessi málefni. Halla vissi
fyrst um sinn ekki hvað hún gæti haft til málanna að leggja, en lærði að meta
það að hún gæti hjálpað og haft áhrif. Þarna var það að ákveðið að Halla vildi
læra eitthvað sem tengdist uppeldi og menntun. Hún kláraði B.Ed. gráðu í
grunnskólafræðum 2007 og hefur starfað sem leikskólakennari á sama staðnum
síðan þá. Hugljúf saga um sveitastúlkuna sem varð kennari og var hamingjusöm
upp frá því? Er að raunveruleikinn? Því miður er það ekki svo gott.
Ég er þessi Halla og mér líkar leikskólastarfið mjög vel. Starfinu fylgir mikið frelsi, en um leið mikil ábyrgð. Starfið
hefur þó tvo ókosti, að mínu mati. Fyrri er sá að fyrir þetta ábyrgðarfulla
starf fær háskólamenntuð manneskjan allt of lág laun. Seinni ókosturinn er sá
að starfinu fylgir oft mikið andlegt álag. Þegar heim er komið er ég andlega
punkteruð (norðlenska yfir það að vera með sprungið dekk). Ég tel að ástæðan sé tvíþætt; of mörg börn
séu í sama rými annars vegar og hins vegar að foreldrar hræðist að setja börnum
sínum skýr mörk. Það á að sjálfsögðu ekki við alla foreldra, en verður æ
algengara. Börnin eru því oft svolítið hömlulaus og eiga erfitt með að skilja
það að virða eigi eigur og þarfir annara. Þau eru að sjálfsögðu sjálfhverf að
upplagi, en greinilegt er hvaða börn fá ramma heima hjá sér og hver ekki. Þau
börn sem alast upp við ramma og einhverjar reglur, kunna frekar að stoppa. En
það er efni í heilan pistil, svo nánar verður ekki farið út í uppeldisfræði hér
og nú.
Samfélagið sér leikskólastarfið með misjöfnum
augum. Sumir líta eingöngu á leikskólann sem geymslu fyrir börnin. En ólíkt
peningageymslu fá umsjónarmenn barnanna ekki laun í samræmi við ábyrgðina sem
þeir bera. Ég tel að of margir foreldrar sýni starfinu ekki næga virðingu eða
hafi ekki rétta sýn á því. Margir foreldrar telja etv. að kennarar sitji og
púsli allan daginn. Púsl eru vissulega þroskandi og gefa möguleika á málörvun
og almennri fræðslu, en eru svo sannarlega ekki það sem kennari gerir allan
daginn. Þessa vanþekkingu hluta almennings má mögulega rekja til þess að þegar
flestir foreldrar koma með börnin eru rólegheit á meðan börnin tínast inn á
deildina. Í lok dags hafa kennarar svo stýrt börnunum í róleg viðfangsefni, sem
fljótlegt er að ganga frá. Upphaf og lok dagsins eru rólegar stundir. Þess á
milli er margt í gangi. Hér má sjá dæmigert skipulag á deild í leikskóla:
7:30 – 9:00
Börnin mæta, morgunverður
9:00 – 10:00 Hópatímar af ýmsum toga; hópastarf, leikfimi, leikhópar o.fl. Hver hópur er hálftíma til tvo klukkutíma, eftir viðfangsefninu. Hluti af börnunum leika eftir eigin hentisemi, ýmist inni eða úti.
11:00 – 11:30 Samverustundir á borð við tónlist, söng eða sögur. Börnin róuð niður fyrir matinn.
11:30 – 12:00 Hádegisverður
12:00 – 12:30 Sögustundir og hvíld
12:30 – 14:00 Útivera, gönguferðir, leikhópar
14:00 – 15:00 Samverustund, síðdegishressing, leikur
15:00 – 17:00 Leikur, inni og/eða úti
9:00 – 10:00 Hópatímar af ýmsum toga; hópastarf, leikfimi, leikhópar o.fl. Hver hópur er hálftíma til tvo klukkutíma, eftir viðfangsefninu. Hluti af börnunum leika eftir eigin hentisemi, ýmist inni eða úti.
11:00 – 11:30 Samverustundir á borð við tónlist, söng eða sögur. Börnin róuð niður fyrir matinn.
11:30 – 12:00 Hádegisverður
12:00 – 12:30 Sögustundir og hvíld
12:30 – 14:00 Útivera, gönguferðir, leikhópar
14:00 – 15:00 Samverustund, síðdegishressing, leikur
15:00 – 17:00 Leikur, inni og/eða úti
Eins og sjá má er mikið um að
vera í leikskólanum. Leikskólakennarinn er allan daginn að sinna hinum
mismunandi þörfum barnanna, um leið og hann þarf að vera undirbúinn fyrir
hópastarf, leikhópa, söng og lestur. Yfir daginn þarf svo kennarinn að muna að
taka sér hlé, en 100% staða gefur heilar 35 mínútur í hlé. Skipulagða starfið
þarf svo að undirbúa og einnig meta eftir á og til þess fær kennari í fullri
stöðu 4 klukkustundir á viku. Nú segja etv. einhverjir: Af hverju eruð þið að
gera svona mikið, ef það er svona erfitt? Jú, ástæðan er sú að okkur ber að
kenna börnunum ýmsa hluti, enda vinnum við eftir Aðalnámskrá leikskóla.
Okkur
ber að sinna sex grunnþáttum:
-
Læsi
-
Sjálfbærni
-
Heilbrigði og velferð
-
Lýðræði og mannréttindi
-
Jafnrétti
-
Sköpun.
Sjá má Aðalnámskrá leikskóla í
heild á vef Menntamálaráðuneytis.
Best er að skipta börnunum í
litla hópa til að sinna þessum þáttum og svo enginn gleymist. Barn sem aldrei
velur sér föndurstofuna fær t.d. ekki nægilega örvun á því sviði.
Leikskólakennarar hafa gífurlega mikil áhrif á það hvernig einstaklingar börnin
verða. Til þess að það takist sem best þurfa vinnuaðstæður að vera góðar. Bæði
kennarar og börn verða þreytt á miklu áreiti og verður þá erfiðara að nema og
að kenna. Samfélagið þarf líka að átta sig á því að kennarar eru ekki bara
einhverjir sem líta eftir börnunum og skeina þau eftir klósettferðir. Við erum
kennarar og við gerum okkar besta til að kenna börnunum eins mikið og við
getum, þó að við sinnum að sjálfsögðu frumþörfum barnanna líka. Fyrstu fimm æviár barns ákvarða hvers konar
einstaklingar börnin verða, eða a.m.k. þróa þau með sér grunnsiðferði, sem erfitt getur verið að
breyta síðar meir. Það lærði ég í sálfræðiáfanga í háskólanáminu, sem ég þarf að
borga af í mörg ár í viðbót, því ekki átti ég uppsafnað fé eftir að starfa sem
leiðbeinandi í leikskóla.
Sýnum kennurum, ekki bara í
leikskóla, heldur líka öðrum stigum, virðingu. Hærri laun, meiri virðingu,
betri vinnuaðstæður!
Flottur pistill hjá þér kæra :)
ReplyDeleteVel mælt Halla mín.
ReplyDelete