Halla er fjögurra barna móðir, sambýliskona, leikskólakennari, söngelsk, listhneigð, skrifelsk, fróðleiksþyrst og gjarnan með einhvern mótþróa og sérvisku.
25 October, 2010
Kvennafrídagur
Í dag var kvennafrídagur. Ég vinn á svokölluðum kvennavinnustað og voru foreldrar beðnir um að sækja börnin sín um tvöleytið í dag. Ekki höfðu allir foreldrar þó tök á því að sækja börnin á þeim tíma og ég bauðst til að verða eftir með þau börn. Svo kom nú á daginn að það var einungis eitt barn eftir hálf 3 hjá mér, en mér fannst það svo sem alveg huggulegt. Þeim hinum í vinnunni fannst ég vera full áhugalaus um þennan kvennafrídag og spurðu hvort ég væri sátt við þau laun sem ég fengi. Að sjálfsögðu vil ég hærri laun, en hverju breytir það að ég fari niður í bæ og labbi með þúsundum annara kvenna, í nístandi kulda og troðningi? Með fullri virðingu fyrir kvenréttindabaráttu, sem á fullan rétt á sér, sá ég mig ekki knúna til að skunda niður í bæ og kalla: ég vil hærri laun! Ég fór heldur ekki á Austurvöll til að mótmæla við Alþingi. Ég forðast að fara í bæinn á 17. júní. Svona er ég bara að eðlisfari, mér finnst óþægilegt að vera í kringum svona mikið af fólki, mig langar að sökkva ofan í jörðina. Eða bara vera heima hjá mér í kósýheitum. Ég er meiri einfari en hópsál, þó mér líki alveg vel að vera í kringum fólk, bara þoli ekki of mikla mannmergð. Ef til vill er ég þá vanvirkur samfélagsþegn, en eru mótmæli og göngur eina leiðin til að sýna fram á vanþökk á hlutum? Mér myndi til að mynda henta betur að mótmæla með því að skrifa í blöð eða eitthvað slíkt, en mér finnst ég bara ekki í nægri ritþjálfun til slíkra verka, ekki enn. Tja, já, þetta var sumsé pæling dagsins.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
ég skil þig svo vel höllulíus =)
ReplyDelete