11 September, 2010

Endurfæddur bloggari

Það er langt um liðið frá því að ég hef bloggað. Svo langt er síðan að mér var ómögulegt að komast inn á gamla bloggið mitt. Því ákvað ég að byrja á nýjum grunni. Hér mun ég deila hugsunum mínum með almenningi og um leið styrkja sjálfa mig í því að gerast betri penni, því ég hef alltaf haft ánægju af skrifum, þ.e. frá því að ég varð skrifandi. Viðfangsefni verða margvísleg, eða einfaldlega það sem mér er hugleikið þá stundina. 

Í dag er ég að spá í hörmungaratburðinn sem átti sér stað 11. september 2001, þegar Tvíburaturnarnir hrundu niður eins og spilaborg. Auk þess var ráðist á stjórnarráðið í Pentagon. Þennan dag var ég stödd á eyjunni Rhodos í Miðjarðarhafinu. Ég var í útskriftarferð með samnemendum mínum í MA og margir urðu órólegir yfir þessum fréttum. Í hverju herbergi var kveikt á BBC og CNN, samnemendur mínir voru skelfingu lostnir yfir þessum árásum á Bandaríkin. Einhverjir fóru að tala um að við ættum að drífa okkur heim, því við værum svo nálægt Mið-Austurlöndum, þeir ætluðu sko ekki að lenda í miðju stríði. Að venju hélt ég minni stóísku ró og sá nú ekki ástæðu til að fá taugaáfall yfir þessum fréttum. Í fyrsta lagi hefði verið óþarfa æsingur að drífa sig heim, ef eitthvað þá væru flugfélögin í meira losti einmitt þarna en nokkrum dögum síðar. Í öðru lagi þá taldi ég harla ólíklegt að eyjan Rhodos myndi lenda í miðri skotárás. Í þriðja lagi þá hafði ég takmarkaða samúð með Bandaríkjamönnum, þó mér þyki alltaf slæmt að heyra af slíkum atburðum. Bandaríkjamenn hafa í gegnum tíðina, ekki hikað við að bomba aðrar þjóðir og hafa þá ekkert verið að sleppa saklausum borgurum undan þeim árásum. Af hverju ættu líf Bandaríkjamanna að vega meira en t.d. Íraka? Reglulega fáum við fréttir af árásum á saklaust fólk út um víða veröld og kippum okkur yfirleitt ekkert upp við það, en þegar Bandaríkjamenn lenda í því eru allir harmi slegnir. Vissulega voru það nýmæli að ráðist væri á vestræna þjóð og fólki fannst þetta full nálægt Íslandi. Bandaríkjamenn spila sig alltaf sem góða gæjann, en þeir eru ekkert eins góðir og þeir þykjast vera. Það virðist vera svo margt gruggugt við stjórnkerfið í Bandaríkjunum og alltaf svo mikil leynd yfir öllu. Á síðustu árum hefur verið uppi orðrómur um að árásin á Bandaríkin árið 2001, hafi í raun verið skipulögð af Bandaríkjamönnum sjálfum, til þess að fá átyllu fyrir innrás í Afghanistan. Ég þekki það ekki nógu vel og ætla ekki að fara að staðhæfa of mikið um það mál, en í myndinni Zeitgeist er m.a. fjallað um þennan atburð og sýnt fram á ýmsa hluti sem eru afar gruggugir. Ég enda þennan pistil á að benda fólki á að horfa á þessa áhugaverðu mynd, en hún er aðgengileg hér á netinu. Þar er einnig fjallað um trúarbrögð, bankana og hernað. Hernað og trúarbrögð mun ég skrifa um síðar.

No comments:

Post a Comment