28 February, 2021

Friðsöm veröld?

Við akstur minn um borgina hljómaði lagið Imagine í útvarpstækinu. Ég byrjaði að syngja með og allt í einu gat ég bara ekki sungið því kökkur hafði myndast í hálsinum. Ég var farin að háskæla en það gerist stundum þegar ég velti fyrir mér textum, myndböndum, kvikmyndum, auglýsingum og alls konar efni sem kemur við tilfinningar mínar. Eins og flestir vita fjallar textinn í Imagine um hinn útópíska veruleika að búa í heimi þar sem öllum kemur saman. Ég fór að gráta því það mun líklega aldrei gerast. 

Mannskepnan býr yfir mikilli heift og getur hún birst á marga vegu. Fyrr í vetur var fólk afhöfðað í messu í Frakklandi, fyrir það eitt að tilheyra samfélagi þar sem borin er virðing fyrir margs konar menningu og trúarbrögðum. Árásaraðilinn taldi hins vegar að þeir sem ekki trúa í einu og öllu á það sama og hann og hans skoðanabræður, væru réttdræpir. Umburðarlyndið ekkert. Stúlkubörn eru umskorin, gefin hæstbjóðanda áður en þær verða fullvaxta. Konur eru grýttar fyrir engar sakir, sýruárásir og hópnauðganir eiga sér stað, stúlkur mega ekki mæta í skólann á blæðingum, fólki er útskúfað fyrir að trúa ekki á opinbera trú þess ríkis og fólk selt á svörtum markaði. Þetta eru bara örfá dæmi um hin ýmsu mannréttindabrot sem eiga sér stað í heiminum í dag. Fátækt ríkir víða, oft vegna spillingar yfirvalda og/eða stríðsátaka. Af hverju þessi átök?

Það er nokkuð ljóst að þegar litið er yfir heiminn má sjá að heift, grimmd, valdníðsla og virðingarleysi fyrir náunganum eru allt verulega áþreifanlegar staðreyndir. Þetta er að því er virðist innprentað í mannskepnuna. Ég tel okkur í vestrænum heimi vera heppin því mannréttindi eru fest í lög og flestir umbera að nágranninn hafi aðrar lífsskoðanir. Við höfum frelsi til athafna og skoðana. Vissulega er brotið á fólki á Vesturlöndum, enda býr mannskepnan yfir sama eðli hvar sem hún býr á hnettinum. En hér eru nokkuð mannúðleg lög sem gera okkur kleift að refsa þeim er brjóta á öðrum. 

Í byrjun nóvember 2020 fóru fram forsetakosningar í Bandaríkjunum og var ég mjög hugsi yfir þeim. Báðir frambjóðendur höfðu við hvert tækifæri kafað djúpt ofan í jörðina til að taka lúku fulla af drullu og ausa yfir hinn. Eftir stóðu tveir ellilífeyrisþegar ataðir aur, en báðir sannfærðir um að þeir væru búnir að hrista hann af sér með því að færa athyglina á því hvað hinn væri skítugur. Ásakanir, uppnefningar, afneitanir, ýkjur og þar fram eftir götunum. Hvorugur fullkomlega frambærilegur fulltrúi síns flokks að mínu mati. Ólgan fyrir þessar kosningar voru gífurlegar og dæmi eru um að fjölskyldur og vinasambönd þar ytra hafi splundrast vegna þess að fólk var ósammála um forsetavalið. Það reynist sumum erfiðara en öðrum að virða ólíkar skoðanir og að ímynda sér það hvert sjónarmið viðkomandi geti verið. Það er eins og það skorti stundum hæfileikann til að staldra við og hugsa út í ástæður þess að einhver sé ekki sammála um málefnið. Það virðist því miður vera svo að þarna séu hin helstu ágreiningsefni Vesturlanda; innan stjórnmálarófsins. Það virðist í sumum tilfellum jafnvel hafa komið í stað trúarbragða hjá fólki. 

Öll höfum við okkar sýn á heiminn og markast það af persónulegum reynsluheimi hvers og eins. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að það séu skiptar skoðanir á því hvaða leið sé talin best og mismunandi hvaða fórnir fólk er tilbúið að færa til að ná fram því sem þarf. Best væri ef engar fórnir þyrfti að færa, en því miður er það þannig að aldrei er hægt að stjórna ríki á þann hátt að það þóknist öllum sem þar búa að öllu leyti og þá sér í lagi ekki í eins fjölbreyttri mannflóru og er í Bandaríkjunum. Ekki ætla ég að ræða ítarlega forsetaefni Bandaríkjanna hér, en annar hefur allt að því verið gerður réttdræpur og fylgjendum hans úthúðað og jafnvel kallaðir útskiptanlegir (e. deplorables). Mér þykir slíkt hart til orða tekið og á engan hátt bera vott um virðingu fyrir öllum mannslífum. Raunar finnst mér það bera merki um Orwellisma, þ.e. að sumir séu rétthærri en aðrir (Animal Farm) og að allir eigi að vera sömu skoðunar og hlýða í blindni yfirvaldinu (1984). Það væri vissulega heppilegra og meira viðeigandi að fráfarandi forseti Bandaríkjanna hefði ekki verið svo óheflaður, en hann er samt manneskja, þó honum hafi verið lýst sem skrímsli af ýmsum fjölmiðlum. Það er þó efni í annan pistil, svo ég læt staðar numið hér af þeirri umræðu. Ef einhver skrifar í athugasemdum að ég sé svokallaður "Trumpisti" þá bið ég bara viðkomandi vel að lifa og finna sér annan vettvang til að setja stimpla á fólk út frá heimspekilegum vangaveltum sínum. Karlinn hefur marga ókosti, en hann hefur, ótrúlegt en satt, líka kosti, rétt eins og allir aðrir. Ég hef bara séð að fjölmiðlafárið í kringum hann var af óeðlilegri stærðargráðu og hef efasemdir um slíkt framferði af hálfu fjölmiðla. Ég á t.d. erfitt með að skilja hvernig fólk sem hefur dæmt karlinn fyrir hatur er tilbúið að hata hann af öllu hjarta, þ.e. verða það sem það er að fordæma. 

Aftur að kjarna þessara hugrenninga minna. Ég er alin upp í fámennri sveit og þar var staðan sú að maður neyddist hreinlega til að umgangast alla í skólanum, hvort sem maður átti eitthvað sameiginlegt með þeim eður ei. Þess vegna tel ég mig vera umburðarlynda að eðlisfari, ég forðast að dæma fólk, ég reyni að skilja af hverju einhver hagar sér á ákveðinn hátt og ég átta mig á því að ég hef takmarkað eða í raun ekkert vald til að breyta viðkomandi. Ég hef verið særð á mínum 39 árum en ég hef aldrei leyft særindunum að dvelja of lengi í huga mér. Slíkt elur bara af sér biturleika og hatur sem ég hef ekki pláss fyrir í mínu lífi. Ég er líka afskaplega átakafælin og fer iðulega að gráta ef ég lendi í erjum. Ég er þó fjarri því að vera fullkomin og ég hef sært einhverja sjálf, en vegna þess að ég hugsa svona á ég erfitt með að skilja af hverju það reynist fólki oft erfitt að tala saman af virðingu og með lausnamiðun að leiðarljósi. Þurfa alltaf að vera átök og sleggjudómar? Hvers vegna er það svo ríkt hjá fólki að lítilsvirða þá er líta heiminn ekki sömu augum og það? Ég sé víða hræsni hjá fólki sem prédikar um náungakærleika. Það virðist nefnilega skipta máli hver náunginn er og hvaða skoðanir hann hefur hvað varðar það að eiga skilið að fá samkennd. Fólk stimplað sem hitt eða þetta út frá ákveðnum skoðunum, eins og ein skoðun varpi heildarmynd á persónu viðkomandi. Mér líst ekki á hvert slíkur rétttrúnaður stefnir, en ég sé þennan rétttrúnað vel í fjölmiðlum og á athugasemdakerfum. Múgurinn jarmar svo bara með og skoðanir þeirra er á hlýða/lesa eru mótaðar. Reiðubúin að taka þá af lífi á athugasemdakerfum sem segja eitthvað annað. Sjálf er ég afskaplega mikið úti um allt á þessu blessaða stjórnmálarófi, en verð með hverju árinu sannfærðari um mikilvægi alls rófsins, einvörðungu til þess að koma í veg fyrir öfgar. Hægrið hefur taum á vinstrinu í ákveðnum málefnum og vinstrið á hægrinu. Yin og yang; hinn gullni meðalvegur. Það er það sem einkennir góð samskipti; að virða fjölbreytileikann, hvaðan sem hann kemur. Það má líka stundum synda á móti straumnum, þó það sé erfiðara en að fljóta bara með. Kannski þarf að hlúa vel að sálartetrinu samhliða því, en það er alltaf þess virði að vera sannur sínum gildum, svo lengi sem þau gildi eru ekki þess eðlis að brotið sé á öðrum (eins og í dæminu með hinn guðlega sendiboða sem afhöfðaði fólk). 

Ég óska ykkur góðra stunda og vona að skrif mín veki fólk til umhugsunar um að skoða hvort það viti nóg um málefnin áður en það skrifar harðorðar athugasemdir á veraldarvefnum. Aðgát skal höfð í nærveru sálar og allir hafa sál, jafnvel harðsvírað stjórnmálafólk með þykka skrápa. Ég trúi á hið góða í mannskepnunni og að manngæskan sé okkur tamari en heiftin og mun algengari. Ég trúi því að þeir sem brjóti á öðrum séu í raun brotnir einstaklingar sem hafa valið ranga leið eða orðið fyrir ranglæti einhvers staðar á lífsleiðinni. Það réttlætir þó ekki brotið, brot er auðvitað alltaf brot og er viðeigandi að viðkomandi aðili vinni í sínum málum á viðeigandi hátt. Ég trúi því að ef við kennum börnum okkur að vera í tengslum við tilfinningar sínar og huga að því hvernig þau koma fram við aðra getum við horft upp á fágaðri og jákvæðri samskipti með sterka og jafnframt sanngjarna leiðtoga í framtíðinni. Til þess þurfum við líka að vera fyrirmyndir. Höfum virðingu og umburðarlyndi á bak við eyrað og munum að það er ómögulegt að alltaf séu allir sammála. 

"You may say I'm a dreamer, but I'm not the only one."

22 February, 2015

Virðing og yfirvegun

Þegar ég var að sofna í gærkvöldi, var ég einhverra hluta vegna að velta fyrir mér því hvernig við komum fram við aðra og hversu misjafnt það getur verið á milli einstaklinga. Ég trúi því að allt fólk fæðist með gott hjartalag og hafi góðmennsku innra með sér. Hversu vel það nær að skína í gegn í framkomu fólks er þó afar einstaklingsbundið og tengist því aðallega hvernig tengsl við upplifum í uppvexti okkar. Það sem ég var mest að hugsa um er greyið fólkið sem þarf að svara í símann fyrir hinar ýmsu stofnanir, þ.e. ritara og þess háttar. Ég hef orðið vitni að því að fólk hringir fokillt í fyrirtæki og því miður bitnar reiðin einna mest á þeim sem hafa ekkert um málið að segja, þ.e. þeim sem svara í símann. Það fólk gefur svo símann áfram til þess aðila sem málið varðar og á meðan nær fólk ef til vill að róast örlítið niður. Ég hef einnig heyrt hina hliðina, það að það sé mjög lýjandi að svara í símann fyrir stofnun, þegar þú getur ekkert annað gert en að halda ró þinni og reyna að aðstoða viðkomandi eftir fremsta megni. Ég hef svo að auki sjálf unnið á kassa í matvöruverslun, þar sem ég hafði nákvæmlega ekkert að segja um verðlag eða hvað væri pantað inn í búðina. Þar fékk maður þó oft að heyra það að þetta væri fáránlega dýrt og fólk jafnvel hætti við að kaupa hluti í pirringskasti og vantaði bara að það kastaði vörunni í hausinn á manni. Hvað kemur það kassastarfsmönnum við hvað varan kostar? Þeir hafa ekkert um það að segja og þó þeir reyndu að tjá sig um það, myndu yfirmenn ekki hlusta á þá. Þetta veldur mér svolítilli gremju, að það séu svona oft litlu peðin, sem fá yfir sig mestu drulluna. Fótgönguliðar samfélagsins, sem ekkert gera annað en að fara eftir fyrirmælum hershöfðingjanna sem þeir vinna fyrir. Ef svo má að orði komast. 

Annar póll í þessu dæmi er þegar maður hringir inn og fær leiðinlegt viðmót hjá þeim sem svarar. Það gerist nú ekki oft, enda er fólk í símsvörun iðulega afar kurteist. Eitt sinn hringdi ég á ónefnda heilsugæslustöð og þurfti að panta tíma á neyðarvakt sem boðið var upp á seinnipart dags. Ég fékk leiðinleg tilsvör um að þetta væri sko bara ætlað fyrir þá sem þyrftu að komast strax til læknis og gætu ekki beðið. Tónninn var mjög fráhrindandi í rödd þessa einstaklings og fékk ég á tilfinninguna að búið væri að ákveða að ég væri ekki í brýnni þörf til að komast undir læknishendur. Ég þurfti því þarna í símtalinu að útskýra að ég væri sárkvalin af kviðverkjum og væri varla vinnufær. Þá breyttist tónninn í röddinni og viðkomandi fór að sleikja mig upp og sýna mér vorkunn. Mér fannst þetta afar furðulegt símtal. Af hverju spurði viðkomandi ekki kurteislega í upphafi hvort erindið væri mjög brýnt? Í stað þess að gefa sér að ég væri móðursjúk. Þessir hlutir skipta rosalega miklu máli í samskiptum. Þó að þér líði ekki sem best og þó að einhver hafi verið með leiðindi eða vesen við þig, máttu ekki láta það bitna á óviðkomandi aðila. Það er bara ekki sanngjarnt. Það þarf stundum að anda djúpt og vanda sig og ég átta mig á því að það getur verið erftitt. Trúið mér, ég hef sjálf fallið í þessa gryfju sjálf og hreytt einhverju í börnin mín eða manninn minn, bara af því ég er þreytt og pirruð. En ég sé svo eftir þvi þegar það gerist, því það er ekki sanngjarnt af mér að láta svona. 

Samskiptamiðlar eru svo enn annar vinkill í þessu dæmi, en ég hef mig varla í að hefja máls á því málefni eða taka dæmi. Ég forðast það eiginlega bara að lesa ummælin sem fólk lætur frá sér við fréttir sem viðkoma glæpum eða mistökum fólks. Það á að taka fólk af lífi og ég veit ekki hvað. Eigum við ekki bara að taka upp aflífanir á götutorgum eins og á miðöldum? Mér sýnist fólk oft vilja það. Fólk hefur ekki einu sinni kynnt sér allar hliðar málsins og gleyma því að fréttamiðlar eiga það til að blása mál upp að óþörfu. Svo gleymist líka hversu ólíkt fólk getur verið og að lífsskoðun annarra sé ekki endilega röng, þó hún sé önnur en hjá þér.  

Kjarninn í þessum pistli mínum er því þessi: Öndum djúpt áður en við tjáum okkur, leitumst eftir að nota yfirvegaðan og rólegan talsmáta, dæmum ekki fyrirfram, hlustum á fleiri en eina hlið á málefnum, kynnum okkur málefni áður en við tjáum okkur um þau og látum ekki smápeðin alltaf taka á sig alla drulluna. Reyndar er best að sleppa öllu skítkasti og róa sig áður en maður tjáir sig. Það er líka frekar hlustað á aðila sem talar af yfirvegun og viðkomandi getur vel sýnt ákveðni um leið og hann sýnir virðingu. Ákveðni og yfirgangur er alls ekki það sama. Virðing og yfirvegun er lykill að góðum samskiptum. Það er ekki víst að okkur sé það öllum tamið að sýna þessa hluti, en við getum allavega alltaf æft okkur og bætt okkur, er það ekki?




17 June, 2014

Kvart og kvein - innsýn í leikskólastarfið

Árið 1982 fæddist hjónunum í Sandvík í Bárðardal, þriðja stúlkubarnið. Hún fékk nafnið Halla í höfuðið á afa sínum. Halla var mikið náttúrubarn og var alin upp við góð gildi, sem enn lifa í stúlkunni. Höllu stóðu flestar dyr opnar við útskrift úr grunnskóla. Hún var með góðar einkunnir á öllum sviðum. Stúlkan hafði á unglingsárum farið að vinna í ferðaþjónustu í sveitinni. Á menntaskólaárum prófaði hún einnig að vinna í matvöruverslun og eitt sumar í banka. Bankavinnan féll Höllu ekki í geð, enda átti náttúrubarnið erfitt með að sitja í bás fyrir framan tölvu. Hún var líka orðin þreytt á þessum þjónustustörfum, þó hún vissi að einhver þyrfti að vinna þau. Eftir útskrift fékk Halla vinnu við að vera leiðbeinandi í leikskóla. Henni hefði aldrei dottið í hug að sækja um starf þar, en systir hennar vann þar og það vantaði starfsmann. Á fyrsta starfsmannafundinum sá hún að þetta væri gott starf fyrir hana. Hún hafði alltaf einungis tekið við fyrirmælum og aldrei haft mikið um störfin að segja. Þarna var hún spurð hvort það væri eitthvað sem hún vildi tala um og hvað henni þætti um hin og þessi málefni. Halla vissi fyrst um sinn ekki hvað hún gæti haft til málanna að leggja, en lærði að meta það að hún gæti hjálpað og haft áhrif. Þarna var það að ákveðið að Halla vildi læra eitthvað sem tengdist uppeldi og menntun. Hún kláraði B.Ed. gráðu í grunnskólafræðum 2007 og hefur starfað sem leikskólakennari á sama staðnum síðan þá. Hugljúf saga um sveitastúlkuna sem varð kennari og var hamingjusöm upp frá því? Er að raunveruleikinn? Því miður er það ekki svo gott.

Ég er þessi Halla og mér líkar leikskólastarfið mjög vel. Starfinu fylgir mikið frelsi, en um leið mikil ábyrgð. Starfið hefur þó tvo ókosti, að mínu mati. Fyrri er sá að fyrir þetta ábyrgðarfulla starf fær háskólamenntuð manneskjan allt of lág laun. Seinni ókosturinn er sá að starfinu fylgir oft mikið andlegt álag. Þegar heim er komið er ég andlega punkteruð (norðlenska yfir það að vera með sprungið dekk).  Ég tel að ástæðan sé tvíþætt; of mörg börn séu í sama rými annars vegar og hins vegar að foreldrar hræðist að setja börnum sínum skýr mörk. Það á að sjálfsögðu ekki við alla foreldra, en verður æ algengara. Börnin eru því oft svolítið hömlulaus og eiga erfitt með að skilja það að virða eigi eigur og þarfir annara. Þau eru að sjálfsögðu sjálfhverf að upplagi, en greinilegt er hvaða börn fá ramma heima hjá sér og hver ekki. Þau börn sem alast upp við ramma og einhverjar reglur, kunna frekar að stoppa. En það er efni í heilan pistil, svo nánar verður ekki farið út í uppeldisfræði hér og nú.

Samfélagið sér leikskólastarfið með misjöfnum augum. Sumir líta eingöngu á leikskólann sem geymslu fyrir börnin. En ólíkt peningageymslu fá umsjónarmenn barnanna ekki laun í samræmi við ábyrgðina sem þeir bera. Ég tel að of margir foreldrar sýni starfinu ekki næga virðingu eða hafi ekki rétta sýn á því. Margir foreldrar telja etv. að kennarar sitji og púsli allan daginn. Púsl eru vissulega þroskandi og gefa möguleika á málörvun og almennri fræðslu, en eru svo sannarlega ekki það sem kennari gerir allan daginn. Þessa vanþekkingu hluta almennings má mögulega rekja til þess að þegar flestir foreldrar koma með börnin eru rólegheit á meðan börnin tínast inn á deildina. Í lok dags hafa kennarar svo stýrt börnunum í róleg viðfangsefni, sem fljótlegt er að ganga frá. Upphaf og lok dagsins eru rólegar stundir. Þess á milli er margt í gangi. Hér má sjá dæmigert skipulag á deild í leikskóla:

7:30 – 9:00 Börnin mæta,  morgunverður
9:00 – 10:00 Hópatímar af ýmsum toga; hópastarf, leikfimi, leikhópar o.fl. Hver hópur er hálftíma til tvo klukkutíma, eftir viðfangsefninu. Hluti af börnunum leika eftir eigin hentisemi, ýmist inni eða úti.
11:00 – 11:30 Samverustundir á borð við tónlist, söng eða sögur. Börnin róuð niður fyrir matinn.
11:30 – 12:00 Hádegisverður
12:00 – 12:30 Sögustundir og hvíld
12:30 – 14:00 Útivera, gönguferðir, leikhópar
14:00 – 15:00 Samverustund, síðdegishressing, leikur
15:00 – 17:00 Leikur, inni og/eða úti

Eins og sjá má er mikið um að vera í leikskólanum. Leikskólakennarinn er allan daginn að sinna hinum mismunandi þörfum barnanna, um leið og hann þarf að vera undirbúinn fyrir hópastarf, leikhópa, söng og lestur. Yfir daginn þarf svo kennarinn að muna að taka sér hlé, en 100% staða gefur heilar 35 mínútur í hlé. Skipulagða starfið þarf svo að undirbúa og einnig meta eftir á og til þess fær kennari í fullri stöðu 4 klukkustundir á viku. Nú segja etv. einhverjir: Af hverju eruð þið að gera svona mikið, ef það er svona erfitt? Jú, ástæðan er sú að okkur ber að kenna börnunum ýmsa hluti, enda vinnum við eftir Aðalnámskrá leikskóla. 

Okkur ber að sinna sex grunnþáttum:
-          Læsi
-          Sjálfbærni
-          Heilbrigði og velferð
-          Lýðræði og mannréttindi
-          Jafnrétti
-          Sköpun.

Sjá má Aðalnámskrá leikskóla í heild á vef Menntamálaráðuneytis.

Best er að skipta börnunum í litla hópa til að sinna þessum þáttum og svo enginn gleymist. Barn sem aldrei velur sér föndurstofuna fær t.d. ekki nægilega örvun á því sviði. Leikskólakennarar hafa gífurlega mikil áhrif á það hvernig einstaklingar börnin verða. Til þess að það takist sem best þurfa vinnuaðstæður að vera góðar. Bæði kennarar og börn verða þreytt á miklu áreiti og verður þá erfiðara að nema og að kenna. Samfélagið þarf líka að átta sig á því að kennarar eru ekki bara einhverjir sem líta eftir börnunum og skeina þau eftir klósettferðir. Við erum kennarar og við gerum okkar besta til að kenna börnunum eins mikið og við getum, þó að við sinnum að sjálfsögðu frumþörfum barnanna líka.  Fyrstu fimm æviár barns ákvarða hvers konar einstaklingar börnin verða, eða a.m.k. þróa þau með sér grunnsiðferði, sem erfitt getur verið að breyta síðar meir. Það lærði ég í sálfræðiáfanga í háskólanáminu, sem ég þarf að borga af í mörg ár í viðbót, því ekki átti ég uppsafnað fé eftir að starfa sem leiðbeinandi í leikskóla.

Sýnum kennurum, ekki bara í leikskóla, heldur líka öðrum stigum, virðingu. Hærri laun, meiri virðingu, betri vinnuaðstæður!

25 October, 2010

Kvennafrídagur

Í dag var kvennafrídagur. Ég vinn á svokölluðum kvennavinnustað og voru foreldrar  beðnir um að sækja börnin sín um tvöleytið í dag. Ekki höfðu allir foreldrar þó tök á því að sækja börnin á þeim tíma og ég bauðst til að verða eftir með þau börn. Svo kom nú á daginn að það var einungis eitt barn eftir hálf 3 hjá mér, en mér fannst það svo sem alveg huggulegt. Þeim hinum í vinnunni fannst ég vera full áhugalaus um þennan kvennafrídag og spurðu hvort ég væri sátt við þau laun sem ég fengi. Að sjálfsögðu vil ég hærri laun, en hverju breytir það að ég fari niður í bæ og labbi með þúsundum annara kvenna, í nístandi kulda og troðningi? Með fullri virðingu fyrir kvenréttindabaráttu, sem á fullan rétt á sér, sá ég mig ekki knúna til að skunda niður í bæ og kalla: ég vil hærri laun! Ég fór heldur ekki á Austurvöll til að mótmæla við Alþingi. Ég forðast að fara í bæinn á 17. júní. Svona er ég bara að eðlisfari, mér finnst óþægilegt að vera í kringum svona mikið af fólki, mig langar að sökkva ofan í jörðina. Eða bara vera heima hjá mér í kósýheitum. Ég er meiri einfari en hópsál, þó mér líki alveg vel að vera í kringum fólk, bara þoli ekki of mikla mannmergð. Ef til vill er ég þá vanvirkur samfélagsþegn, en eru mótmæli og göngur eina leiðin til að sýna fram á vanþökk á hlutum? Mér myndi til að mynda henta betur að mótmæla með því að skrifa í blöð eða eitthvað slíkt, en mér finnst ég bara ekki í nægri ritþjálfun til slíkra verka, ekki enn. Tja, já, þetta var sumsé pæling dagsins.

11 September, 2010

Endurfæddur bloggari

Það er langt um liðið frá því að ég hef bloggað. Svo langt er síðan að mér var ómögulegt að komast inn á gamla bloggið mitt. Því ákvað ég að byrja á nýjum grunni. Hér mun ég deila hugsunum mínum með almenningi og um leið styrkja sjálfa mig í því að gerast betri penni, því ég hef alltaf haft ánægju af skrifum, þ.e. frá því að ég varð skrifandi. Viðfangsefni verða margvísleg, eða einfaldlega það sem mér er hugleikið þá stundina. 

Í dag er ég að spá í hörmungaratburðinn sem átti sér stað 11. september 2001, þegar Tvíburaturnarnir hrundu niður eins og spilaborg. Auk þess var ráðist á stjórnarráðið í Pentagon. Þennan dag var ég stödd á eyjunni Rhodos í Miðjarðarhafinu. Ég var í útskriftarferð með samnemendum mínum í MA og margir urðu órólegir yfir þessum fréttum. Í hverju herbergi var kveikt á BBC og CNN, samnemendur mínir voru skelfingu lostnir yfir þessum árásum á Bandaríkin. Einhverjir fóru að tala um að við ættum að drífa okkur heim, því við værum svo nálægt Mið-Austurlöndum, þeir ætluðu sko ekki að lenda í miðju stríði. Að venju hélt ég minni stóísku ró og sá nú ekki ástæðu til að fá taugaáfall yfir þessum fréttum. Í fyrsta lagi hefði verið óþarfa æsingur að drífa sig heim, ef eitthvað þá væru flugfélögin í meira losti einmitt þarna en nokkrum dögum síðar. Í öðru lagi þá taldi ég harla ólíklegt að eyjan Rhodos myndi lenda í miðri skotárás. Í þriðja lagi þá hafði ég takmarkaða samúð með Bandaríkjamönnum, þó mér þyki alltaf slæmt að heyra af slíkum atburðum. Bandaríkjamenn hafa í gegnum tíðina, ekki hikað við að bomba aðrar þjóðir og hafa þá ekkert verið að sleppa saklausum borgurum undan þeim árásum. Af hverju ættu líf Bandaríkjamanna að vega meira en t.d. Íraka? Reglulega fáum við fréttir af árásum á saklaust fólk út um víða veröld og kippum okkur yfirleitt ekkert upp við það, en þegar Bandaríkjamenn lenda í því eru allir harmi slegnir. Vissulega voru það nýmæli að ráðist væri á vestræna þjóð og fólki fannst þetta full nálægt Íslandi. Bandaríkjamenn spila sig alltaf sem góða gæjann, en þeir eru ekkert eins góðir og þeir þykjast vera. Það virðist vera svo margt gruggugt við stjórnkerfið í Bandaríkjunum og alltaf svo mikil leynd yfir öllu. Á síðustu árum hefur verið uppi orðrómur um að árásin á Bandaríkin árið 2001, hafi í raun verið skipulögð af Bandaríkjamönnum sjálfum, til þess að fá átyllu fyrir innrás í Afghanistan. Ég þekki það ekki nógu vel og ætla ekki að fara að staðhæfa of mikið um það mál, en í myndinni Zeitgeist er m.a. fjallað um þennan atburð og sýnt fram á ýmsa hluti sem eru afar gruggugir. Ég enda þennan pistil á að benda fólki á að horfa á þessa áhugaverðu mynd, en hún er aðgengileg hér á netinu. Þar er einnig fjallað um trúarbrögð, bankana og hernað. Hernað og trúarbrögð mun ég skrifa um síðar.