22 February, 2015

Virðing og yfirvegun

Þegar ég var að sofna í gærkvöldi, var ég einhverra hluta vegna að velta fyrir mér því hvernig við komum fram við aðra og hversu misjafnt það getur verið á milli einstaklinga. Ég trúi því að allt fólk fæðist með gott hjartalag og hafi góðmennsku innra með sér. Hversu vel það nær að skína í gegn í framkomu fólks er þó afar einstaklingsbundið og tengist því aðallega hvernig tengsl við upplifum í uppvexti okkar. Það sem ég var mest að hugsa um er greyið fólkið sem þarf að svara í símann fyrir hinar ýmsu stofnanir, þ.e. ritara og þess háttar. Ég hef orðið vitni að því að fólk hringir fokillt í fyrirtæki og því miður bitnar reiðin einna mest á þeim sem hafa ekkert um málið að segja, þ.e. þeim sem svara í símann. Það fólk gefur svo símann áfram til þess aðila sem málið varðar og á meðan nær fólk ef til vill að róast örlítið niður. Ég hef einnig heyrt hina hliðina, það að það sé mjög lýjandi að svara í símann fyrir stofnun, þegar þú getur ekkert annað gert en að halda ró þinni og reyna að aðstoða viðkomandi eftir fremsta megni. Ég hef svo að auki sjálf unnið á kassa í matvöruverslun, þar sem ég hafði nákvæmlega ekkert að segja um verðlag eða hvað væri pantað inn í búðina. Þar fékk maður þó oft að heyra það að þetta væri fáránlega dýrt og fólk jafnvel hætti við að kaupa hluti í pirringskasti og vantaði bara að það kastaði vörunni í hausinn á manni. Hvað kemur það kassastarfsmönnum við hvað varan kostar? Þeir hafa ekkert um það að segja og þó þeir reyndu að tjá sig um það, myndu yfirmenn ekki hlusta á þá. Þetta veldur mér svolítilli gremju, að það séu svona oft litlu peðin, sem fá yfir sig mestu drulluna. Fótgönguliðar samfélagsins, sem ekkert gera annað en að fara eftir fyrirmælum hershöfðingjanna sem þeir vinna fyrir. Ef svo má að orði komast. 

Annar póll í þessu dæmi er þegar maður hringir inn og fær leiðinlegt viðmót hjá þeim sem svarar. Það gerist nú ekki oft, enda er fólk í símsvörun iðulega afar kurteist. Eitt sinn hringdi ég á ónefnda heilsugæslustöð og þurfti að panta tíma á neyðarvakt sem boðið var upp á seinnipart dags. Ég fékk leiðinleg tilsvör um að þetta væri sko bara ætlað fyrir þá sem þyrftu að komast strax til læknis og gætu ekki beðið. Tónninn var mjög fráhrindandi í rödd þessa einstaklings og fékk ég á tilfinninguna að búið væri að ákveða að ég væri ekki í brýnni þörf til að komast undir læknishendur. Ég þurfti því þarna í símtalinu að útskýra að ég væri sárkvalin af kviðverkjum og væri varla vinnufær. Þá breyttist tónninn í röddinni og viðkomandi fór að sleikja mig upp og sýna mér vorkunn. Mér fannst þetta afar furðulegt símtal. Af hverju spurði viðkomandi ekki kurteislega í upphafi hvort erindið væri mjög brýnt? Í stað þess að gefa sér að ég væri móðursjúk. Þessir hlutir skipta rosalega miklu máli í samskiptum. Þó að þér líði ekki sem best og þó að einhver hafi verið með leiðindi eða vesen við þig, máttu ekki láta það bitna á óviðkomandi aðila. Það er bara ekki sanngjarnt. Það þarf stundum að anda djúpt og vanda sig og ég átta mig á því að það getur verið erftitt. Trúið mér, ég hef sjálf fallið í þessa gryfju sjálf og hreytt einhverju í börnin mín eða manninn minn, bara af því ég er þreytt og pirruð. En ég sé svo eftir þvi þegar það gerist, því það er ekki sanngjarnt af mér að láta svona. 

Samskiptamiðlar eru svo enn annar vinkill í þessu dæmi, en ég hef mig varla í að hefja máls á því málefni eða taka dæmi. Ég forðast það eiginlega bara að lesa ummælin sem fólk lætur frá sér við fréttir sem viðkoma glæpum eða mistökum fólks. Það á að taka fólk af lífi og ég veit ekki hvað. Eigum við ekki bara að taka upp aflífanir á götutorgum eins og á miðöldum? Mér sýnist fólk oft vilja það. Fólk hefur ekki einu sinni kynnt sér allar hliðar málsins og gleyma því að fréttamiðlar eiga það til að blása mál upp að óþörfu. Svo gleymist líka hversu ólíkt fólk getur verið og að lífsskoðun annarra sé ekki endilega röng, þó hún sé önnur en hjá þér.  

Kjarninn í þessum pistli mínum er því þessi: Öndum djúpt áður en við tjáum okkur, leitumst eftir að nota yfirvegaðan og rólegan talsmáta, dæmum ekki fyrirfram, hlustum á fleiri en eina hlið á málefnum, kynnum okkur málefni áður en við tjáum okkur um þau og látum ekki smápeðin alltaf taka á sig alla drulluna. Reyndar er best að sleppa öllu skítkasti og róa sig áður en maður tjáir sig. Það er líka frekar hlustað á aðila sem talar af yfirvegun og viðkomandi getur vel sýnt ákveðni um leið og hann sýnir virðingu. Ákveðni og yfirgangur er alls ekki það sama. Virðing og yfirvegun er lykill að góðum samskiptum. Það er ekki víst að okkur sé það öllum tamið að sýna þessa hluti, en við getum allavega alltaf æft okkur og bætt okkur, er það ekki?




2 comments: